Risaskip skilur olíu frá sjó

Risaolíuskipið A Whale hefur verið nefnt stærsta olíuskilvinda í heimi. …
Risaolíuskipið A Whale hefur verið nefnt stærsta olíuskilvinda í heimi. Það sýgur mengaðan sjó um borð, skilur olíuna frá og dælir hreinsuðum sjó fyrir borð. Reuters

Risaolíuskipið A Whale frá Taívan verður notað til að fleyta olíumengun af sjónum í Mexíkóflóa. Olíumengunarslysið þar er orðið það versta sinnar tegundar sem vitað er um. 

Búist var við að úfinn sjór og sterkir vindar myndu áfram tefja hreinsunarátakið. Varnargirðingar færast úr stað og veðrið hrekur olíumengunina upp á viðkvæm strandsvæði og votlendi. Þar ógnar mengunin dýralífi og fjölda fugla sem á þar búsvæði og varplönd.

Paul Zukunft, aðmíráll í bandarísku strandgæslunni, sagði að mengunarstarfið verði erfitt á komandi dögum. Hann hafði einkar miklar áhyggjur af villtu búsvæðunum.

Áætlað er að á hverjum degi hafi streymt 35 þúsund til 60 þúsund tunnur af olíu úr borholunni frá því að olíuborpallur á vegum BP sökk 22. apríl. Það gerir samtals 1,9 milljón til 3,6 milljónir tunna.

Varnarbúnaður hefur fangað um 557 þúsund tunnur af olíu. Slæmt sjóveður hefur komið í veg fyrir að skip sem mun ná 25 þúsund til 53 þúsund tunnum á dag komi að notum.

Talið er að risaolíuskipið A Whale verði stórvirkt í að ná olíu úr Mexíkóflóa. Á síðum skipsins eru sérstök op þar sem það tekur inn olíumengaðan sjó. Um borð er olían skilin frá og sjónum dælt aftur fyrir borð. 

Olíuskipið er 275 metra langt og getur sogið upp um 80 milljónir lítra af sjó á dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert