Ríkir Danir hafa á undanförnum árum flutt gríðarmikið fjármagn heim til Danmerkur úr skattaskjólum erlendis. Dönsk skattayfirvöld vita nú um hverja er að ræða og hve mikla peninga. Ráðherra skattamála óttast að stunduð hafi verið stórfelld skattsvik í nokkuð mörg ár, að því er fram kemur á fréttavefnum business.dk.
Fyrirsögn fréttarinnar er „Umfangsmikil rekstrarveiði á Dönum með peninga í útlöndum“. Rekstrarveiði fer þannig fram að rekstrarmenn reka veiðidýr úr fylgsnum sínum og í færi veiðimanna sem bíða átekta.
Fréttavefurinn segir að eitt stærsta efnahagsbrotamál sögunnar í Danmörku sé nú í uppsiglingu. Skattayfirvöld hafi fengið upplýsingar um Dani sem hafa geymt fjármuni í erlendum skattaskjólum eða hafa flutt háar fjárhæðir úr erlendum bönkum til Danmerkur. Nú á að fara í saumana á þessum málum.
Troels Lund Poulsen, ráðherra skattamála, segir að háar fjárhæðir hafi verið fluttar til Danmerkur frá skattaskjólum í Sviss, Lúxembourg og annars staðar. Í heildina hlaupi þetta á tugum milljarða danskra króna. Hann segir að málið sé mjög umfangsmikið.
Poulsen segir að ef til vill sé hér um að ræða eina umfangsmestu aðgerð sem um ræðir gegn efnahagsbrotum í Danmörku. Skattayfirvöldin öfluðu nákvæmra upplýsinga frá dönskum bönkum um fjármagnsflutningana.
Byrjað verður að rannsaka 150 mál sem verða prófmál. Búist er við að málin verði miklu fleiri.