Tindar í Andesfjöllum Perú verða aftur hvítir, þrátt fyrir að jöklar á þeim hafi bráðnað. Perúski uppfinningamaðurinn Eduardo Gold er með áform um að mála þrjá fjallstinda, 70 hektara svæði, í Ayachucho í Suður-Perú hvíta, að sögn grænlenska útvarpsins KNR.
Félag Eduardo Gold, Glaciares Perú, hlaut m.a. verðlaun Alþjóðabankans í nóvember 2008 í keppni um 100 hugmyndir til bjargar heiminum. Gold segir að hvítt yfirborðið muni endurkasta sólargeislunum og þannig verði kaldara en ella þar í kring.
Með þessu kveðst hann vona að geta stuðlað að því að jöklar myndist á ný þar sem þeir hafa bráðnað.
Vísindamenn telja óvíst að þetta dugi til að snúa við loftslagsþróuninni, jafnt þótt Alþjóðabankinn kosti málningarvinnuna.