Í dag tókst að tengja ómannað rússneskt Progress flutningageimfar við Alþjóðlegu geimstöðina, að sögn rússnesku geimferðamiðstöðvarinnar. Tilraun til að tengja geimfarið við geimstöðina í fyrradag mistókst.
Geimskipinu var skotið á loft 30. júní. Það flytur 2,6 tonn af mat, eldsneyti og vatni fyrir sex geimfara sem nú dvelja í geimstöðinni. Þrír þeirra eru Rússar og þrír Bandaríkjamenn.
Sérfræðingar í Moskvu og áhöfn geimstöðvarinnar stjórnuðu tengingunni. Geimfarið er fertugasta rússneska flutningageimfarið sem gengist alþjóðlegu geimstöðinni.
Geimstöðin er í 350 km hæð yfir jörðu þar sem hún svífur á braut sinni. Um borð í henni eru gerðar fjölbreyttar rannsóknir, m.a. á áhrifum langdvalar í geimnum á mannslíkamann. Þekking á þeim er nauðsynleg vegna lengri geimferða í framtíðinni, t.d. til Mars.