Útlitið bjart í Svíþjóð

Anders Borg.
Anders Borg. Reuters

Sænska fjármálaráðuneytið birti í morgun nýja hagvaxtarspá þar sem gert er ráð fyrir að hagvöxtur í landinu verði 3,3% á þessu ári. Í spá, sem birt var í apríl, var gert ráð fyrir 2,5% hafvexti og hafa efnahagshorfur í Svíþjóð því batnað hratt.

Anders Borg, fjármálaráðherra Svíþjóðar, segir í tilkynningu, að efnahagur Svíþjóðar sé traustur á sama tíma og margar aðrar Evrópuþjóðir glími við erfið vandamál. 

Svíar hækkuðu stýrivexti fyrir helgi og eru eina Vestur-Evrópuþjóðin, sem það hefur gert frá því fjármálakreppan hófst að Norðmönnum undanskildum. Borg sagði, að hugsanlega muni draga hraðar úr atvinnuleysi en spáð hefur verið.

Fjármálaráðuneytið spáir nú 3,8% hagvexti á næsta ári sem er svipað og fyrri spár gerðu ráð fyrir. Árið 2012 er spáð 3,9% hagvexti og 3,3% árið 2013. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert