Flúði með aðstoð smjörlíkis

Fanga tókst að flýja úr fangelsi í Herning í Danmörku í morgun. Að sögn danskra fjölmiðla gerði maðurinn, sem er pólskur, gat á fangelsismúrinn með því að nota hnífapör. Hann smurði síðan á sig smjörlíki og tókst að smjúga gegnum holuna út í frelsið.  

Fréttavefur Berlingske Tidende hefur eftir varðstjóra hjá lögreglunni, að á eftirlitsmyndavélum sjáist hvernig manninum tókst að flýja. Eftir að hafa skriðið gegnum gatið á múrnum kastaði fanginn skyrtu sinni á gaddavírsgirðingu og klifraði yfir hana.

Maðurinn, sem er 32 ára, afplánaði dóm fyrir auðgunarbrot. Honum tókst fyrr á þessu ári að flýja úr fangelsi í Ringkøbing. Hann var skömmu síðar handtekinn í Póllandi og fluttur til Danmerkur á ný. 

Danska lögreglan segir, að auðvelt sé að þekkja manninn, svo framarlega sem hann sé á ferð ber að ofan. Hann er nefnilega með myndir af krókódílum húðflúrarar á hvora öxl og halar skepnanna mætast á bakinu.   

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert