Allsherjarverkföll eru hafin í Grikklandi og Portúgal. Þúsundir hafa lagt niður störf í sólarhring til að mótmæla aðhaldsaðgerðum stjórnvalda. Verkföllin hafa lamað samgöngur í löndunum, m.a. raskað flugi, ferjusiglingu og lestarsamgöngum.
Ástandið er einna verst í Grikklandi þar sem mörg þúsund ferðamenn eru nú strandaglópar vegna raskana á flugi og ferjusiglingum.
Í Portúgal gætir áhrifanna mest í Porto en þar hafa lestarsamgöngur farið úr skorðum. Víða annarsstaðar hefur verið boðað til mótmælafunda.
Þetta er í sjötta sinn á árinu sem Grikkir fara í allsherjarverkfall. Þeir gripu til aðgerða aðeins örfáum klukkustundum eftir að gríska þingið hækkaði eftirlaunaaldurinn í 65 ár, en það er hluti af aðhaldsaðgerðum grískra stjórnvalda. Stefnt er að því að skera niður ríkisútgjöld og draga þannig úr fjárlagahallanum.
Búið er að aflýsa yfir 80 innanlands- og millilandaflugum í landinu. Þá hafa seinkanir orðið á 110 flugferðum, þegar flugumferðarstjórar lögðu niður störf.
Lestar- og rútuferðir lágu niður og skip lágu bundin við bryggju. Ferðamönnum hefur verið tjáð að ferjusiglingar verði ekki aftur með eðlilegum hætti fyrr en á morgun.