Reyndu að búa til sprengjur

Knut Storberget, dómsmálaráðherra Noregs, og Jens Stoltenberg, forsætisráðherra, fjalla um …
Knut Storberget, dómsmálaráðherra Noregs, og Jens Stoltenberg, forsætisráðherra, fjalla um handtökurnar á blaðamannafundi í Ósló í dag. Reuters

Bandarískir embættismenn segja, að mennirnir þrír, sem norska öryggislögreglan handtók í nótt, hafi verið að undirbúa hryðjuverkaárásir og að öllum líkindum hafi einn af yfirmönnum hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda skipulagt árásirnar. Mennirnir voru að reyna að framleiða sprengiefni.

AP fréttastofan hefur eftir ónafngreindum bandarískum embættismönnum, að málið tengist líklega áformum um að gera sprengjuárásir á neðanjarðarlestir í New York í Bandaríkjunum og verslanamiðstöð í Manchester á Englandi en lögreglu tókst að koma í veg fyrir þessar árásir.

Þremenningarnir, sem handteknir voru í nótt, hafa verið undir eftirliti í meira en ár. Embættismenn segja að þeir hafi væntanlega verið að skipuleggja árásir þar sem notaðar yrðu heimatilbúnar sprengjur, svipaðar þeim sem átti að nota í New York og Manchester.  Ekki hefur verið upplýst hvar mennirnir ætluðu að gera árásirnar.

Þrír menn voru fyrr á þessu ári handteknir í Bandaríkjunum, grunaðir um að hafa ætlað að koma fyrir sprengjum í neðanjarðarlestum í New York. Tveir þeirra hafa þegar játað sakir. Eric Holder, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði að um væri að ræða eitt alvarlegasta hryðjuverkasamsæri sem um geti frá árásunum á Bandaríkin árið 2001.

Einn mannanna þriggja, sem nú hafa verið handteknir, er með norskan ríkisborgararétt en er Uighuri að uppruna en Uighurar eru kínverskir múslimar. Hann er 39 ára að aldri og hefur búið í Noregi frá árinu 1999. Hann var handtekinn í Noregi ásamt 31 árs gömlum Úsbeka, sem er með varanlegt landvistarleyfi í landinu. Þá var 37 ára gamall Íraki handtekinn í Þýskalandi en hann er einnig með varanlegt landvistarleyfi í Noregi.

AP hefur eftir bandarískum embættismönnum, að Salah al-Somali, fyrrum aðgerðastjóri al-Qaeda, hafi væntanlega skipulegt hryðjuverkin, sem mennirnir voru að undirbúa. Al-Somali, sem er einnig talinn hafa skipulagt árásirnar fyrirhuguðu í New York og Manchester, lét lífið í loftárás Bandaríkjamanna í Pakistan í lok síðasta árs. 

Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, sagði á blaðamannafundi í Ósló í dag, að málið sýndi að Noregur væri ekki laus við hryðjuverkaógnina. Knut Storberget, dómsmálaráðherra, sagði að norska öryggislögreglan hefði fullvissað stjórnvöld um að almenningur í Noregi hefði ekki verið í hættu og að Noregur væri enn eitt öruggasta land í heimi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert