Best færi á því að Bretar segðu skilið við Evrópusambandið og gerðust aftur aðilar að Fríverslunarbandalagi Evrópu (EFTA). Þessu heldur Daniel Hannan, þingmaður breska Íhaldsflokksins á Evrópuþinginu, fram á vefsvæði sínu á heimasíðu breska dagblaðsins Daily Telegraph.
Bretar voru ein af stofnþjóðum EFTA árið 1960 en gengu síðan úr bandalaginu árið 1972 þegar þeir gerðust aðilar Evrópubandalagsins, forvera ESB. Í dag eru fjögur ríki aðilar að EFTA, Ísland, Noregur, Sviss og Liechtenstein.
Í ræðu sem Hannan flutti í Evrópuþinginu, og sem sýnd er í myndbandi á vefsvæðinu, segir hann ríki EFTA vera tvöfalt ríkari en ríki ESB miðað við nýjustu tölur frá Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD) frá árinu 2008.
„Þrátt fyrir allt sem þau hafa þurft að þola, þrátt fyrir bankakrísu sem hefur haft mismikil áhrif á Sviss og Ísland eru tekjur á hvern einstakling 214% af því sem þær eru í ESB. Fólk í EFTA er tvisvar sinnum ríkara en þeir sem búa í ESB,“ segir Hannan í ræðu sinni og spyr hvers vegna svo sé?
Hann segist telja að ástæðan sé sú að EFTA-ríkin hafi samið um aðgang að innri markaði ESB en t.a.m. staðið fyrir utan sameiginlega stefnu sambandsins í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum og sameiginlega stefnu í viðskiptum við önnur ríki.
Hannan segir að Bretland með sínar 60 milljónir manna hljóti a.m.k. að geta náð jafn góðum árangri utan ESB og t.a.m. 7 milljónir Svisslendinga og 4 milljónir Norðmanna hafi gert.