Hinir efnameiri virðast líklegri til að hætta að borga af húsnæðislánum sínum séu þeir ósáttir við þróun lánanna, en þeir sem hafa minna á milli handanna. Þetta kemur fram á vef New York Times.
Þannig virðist einn af hverjum sjö húseigendum í Bandaríkjunum sem skuldar meira en milljón dollara í húsnæðislán vera kominn í alvarleg vanskil, samkvæmt gögnum sem CoreLogic, fasteignagreiningarfyrirtækið tók saman fyrir blaðið.
Eigendur eigna sem minna hvílir á eru hins vegar mun líklegri til að halda áfram að greiða af lánum sínum, en hlutfall lána í vanskilum er eitt af hverjum tólf er kemur að húseignum í þessum flokki.
Þó erfitt geti reynst að sanna, þykja gögn CoreLogic benda til þess að margir hinna efnameiri geri þetta viljandi til að losa sig eignir sem reynast of kostnaðarsamar, rétt eins og þeir myndu losa sig við slæma fjárfestingu.
„Hinir ríku eru öðruvísi, þeir eru vægðarlausari,” hefur New York Times eftir Sam Khater, yfirhagfræðingi CoreLogic.