Bandaríkjamenn og Rússar skiptu í dag á föngum á flugvellinum í Vínarborg í Austurríki. 10 njósnarar sem játuðu fyrir dómi í Bandaríkjunum í gær að hafa njósnað fyrir Rússa í Bandaríkjunum voru látnir lausir í skiptum fyrir fjóra fanga sem höfðu verið í haldi Rússa.
Bandarísk flugvél lagði við hliðina á rússneskri flugvél á flugvellinum og skiptin gengu greiðlega fyrir sig. Þær flugu svo báðar í burtu stuttu síðar.
Dmitry Medvedev, forseti Rússlands, náðaði fjórmenningana sem voru í haldi í Rússlandi stuttu eftir að þeir höfðu undirritað játningu þess efnis að þeir hefðu stundað njósnastarfsemi í Rússlandi.
Talið var að löng málaferli yfir rússneskum njósnurum í Bandaríkjunum gætu skaðað samskipti ríkjanna alvarlega. Forsetarnir tveir, Obama og Medvedev, hafa lagt mikla áherslu á að bæta sambandið til muna.