Notaði Lady Gaga sem skálkaskjól

Bradley Manning.
Bradley Manning.

Bradley E. Manning, hermaðurinn sem sakaður er um að hafa hlaðið niður miklu magni leynilegra gagna úr tölvum bandaríska hersins í Írak, virðist hafa nýtt sér smugur í öryggismálum bandaríska varnarmálaráðuneytisins. Gögnunum stal Manning á sex mánaða tímabili og í a.m.k. eitt skipti kom hann leynilegum upplýsingum út úr húsi á disk sem leit út fyrir að innihalda tónlist með söngkonunni Lady Gaga.  

Manning var ákærður nú í vikunni fyrir að hafa hlaðið niður meira en 150.000 skjölum, myndböndum og PowerPoint kynningum. Frá því Bradley var settur í gæsluvarðhald í maí sl. hafa bandarísk yfirvöld rannsakað hvernig hann náði að hlaða niður jafn miklu magni öryggisgagna og raun varð án þess að upp kæmist.   

Reglugerð Varnarmálaráðuneytisins bannar alla notkun utanáliggjandi minnistækja og -lykla á þeim sjö milljón tölvum sem herinn notar og hefur raunar verið komið í veg fyrir að hægt sé að tengja minnislykla tölvunum að sögn fréttavefs New York Times. Með þessi móti átti að reyna að koma í veg fyrir að gögn yrðu fjarlægð, sem og að vírusar kæmust í tölvurnar.

Reglugerðin bannaði hins vegar ekki notkun diska og eru diskaspilarar innfeldir í margar tölvur. Þessa glufu virðist Manning hafa nýtt sér til að hlaða niður textaskjölum, myndböndum og öðrum upplýsingum. Og á meðan hann brenndi diskana raulaði hann lög Lady Gaga, til að svo virtist sem hann væri einfaldlega að hlusta á tónlist við vinnuna.

Yfirmenn bandarísku varnarmálastofnunarinnar hafa sagt að samhliða rannsókninni á Manning verði litið til öryggismála og hvort þau séu fullnægjandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert