Ræða verndun tígrisdýra

Indverska tígrisdýrið Raja er af tegundinni konunglegur bengal tígur.
Indverska tígrisdýrið Raja er af tegundinni konunglegur bengal tígur. Reuters

Fulltrúar þeirra 13 landa þar sem tígrisdýr halda til hittast á fundi í Indónesíu í dag í því skyni að undirbúa ráðstefnu í St. Pétursborg í Rússlandi 15.-18. september nk. þar sem kortleggja á hvernig betur megi standa að verndun dýranna.

„Við erum hér saman komin til þess að ræða áhyggjur okkar af sjálfbærni tígrisdýranna,“ lét Zulkifli Hasan, utanríkisráðherra Indónesíu, hafa eftir sér þegar hann setti fundinn sem haldinn er á eynni Balí.

„Það er mikið áhyggjuefni að af þeim níu tegundum tígrisdýra sem fundist hafa í heiminum eru aðeins sex eftir. Aðeins súmötru-tígurinn er eftir í Indóneíu, en tvær aðrir tegundir hafa dáið út,“ sagði Hasan og vísaði þar til javanska- og balíska tígursins sem dóu út annars vegar á níunda áratug og hins vegar fimmta áratug síðustu aldar.

Hasan sagði það ekkert launungarmál að skortur á skýrari löggjöf og löggæslu hafi leitt til þess að súmötru-tígrisdýrum hafi stórfækkað á síðustu árum. Talið er að aðeins séu um 400 slík tígrisdýr eftir í óbyggðum landsins.

Veiðiþjófar drepa á ári hverju fjölda tígrisdýra auk þess sem þorpsbúar drepa dýrin undir því yfirskyni að þeim standi ógn af þeim. Alþjóðleg dýraverndarsamtök telja að tígrisdýrum hafi á síðustu öld fækkað úr um 100.000 í 3.200 á heimsvísu.

Alls hefur þrettán löndum verið boðið til ráðstefnunnar í St. Pétursborg síðar á árinu, en löndin eru Bangladess, Bútan, Kína, Indland, Indónesía, Kambódía, Laos, Malasía, Mjanmar (eða Burma), Nepal, Rússland, Taíland og Víetnam.

Undirbúningsfundurinn á Indónesíu hefst í dag og stendur fram á miðvikudag. Þar munu fulltrúar allra ofangreindra landa kynna aðgerðir sínar til verndunar tígrisdýrum og hvaða fjármagn sett verði í verkefnið.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert