Anna Chapman, sem var vísað úr landi í Bandaríkjunum í síðustu viku ásamt 9 öðrum Rússum vegna njósna þar í landi, hefur verið svipt breskum ríkisborgararétti, sem hún fékk þegar hún giftist Breta.
Breska ríkisútvarpið BBC segir, að Chapman verði formlega svipt ríkisborgararétti sínum síðar í dag. Það þýðir að hún getur ekki ferðast til Bretlands. Lögmaður hennar sagði í síðustu viku, að hún hefði hug á að fara þangað enda væri hún með breskt vegabréf.
Chapman, sem hét upprunalega Anka Kushtsjenkó og er 28 ára að aldri, flutti til Lundúna árið 2002 og starfaði í breska fjármálahverfinu í Lundúnu,. Hún giftist Bretanum Alex Chapman en þau hittust í samkvæmi árið 2002 og giftu sig fimm mánuðum síðar. Þau voru gift í 4 ár en eftir að þau skildu flutti Anna til Bandaríkjanna.