Hættir sem gjaldkeri

Öll spjót standa á Eric Woerth þessa dagana.
Öll spjót standa á Eric Woerth þessa dagana. Reuters

Eric Woerth, atvinnumálaráðherra Frakklands, lýsti því yfir í dag að hann myndi segja af sér embætti gjaldkera stjórnarflokksins UMP. Kröfur hafa komið fram í Frakklandi að Woerth segi af sér ráðherraembætti vegna fjármálahneykslis, sem virðist vinda stöðugt upp á sig.

Woerth tilkynnti þetta eftir ríkisstjórnarfund þar sem hann lagði meðal annars fram frumvarp um að hækka eftirlaunaaldur úr 60 árum í 62. 

Nicolas Sarkozy, forseti, sagði í sjónvarpsviðtali í gærkvöldi, að hann myndi ráðleggja Woerth að segja af sér gjaldkeraembætti hjá flokknum. Hins vegar lagði forsetinn áherslu á, að Woerth myndi áfram stýra vinnu við endurbætur á eftirlaunakerfinu en Sarkozy vonast til að lög þess efnis verði samþykkt í október. 

Fyrrverandi starfsmaður  Liliane Bettencourt, eiganda snyrtivörufyrirtækisins L'Oreal og ríkustu konu Frakklands, hefur sakað Woerth um að hafa árið 2007 tekið við 150 þúsund evrum í kosningasjóð Sarkozys í aðdraganda forsetakosninga þar í landi. Woerth stýrði þá fjáröflunarstarfi framboðs Sarkozys. 

Bæði Woerth og Sarkozy hafa vísað þessum ásökunum á bug og saka fjölmiðla og pólitíska andstæðinga um að standa fyrir ófrægingarherferð gegn þeim.  

Woerth er einnig sakaður um hagsmunaárekstra þar sem eiginkona hans starfaði fyrir fyrirtæki, sem sá um eignastýringu fyrir Bettencourt á sama tíma og hann var fjármálaráðherra og bar ábyrgð á baráttu gegn skattsvikum. 

Skýrsla á vegum frönsku stjórnarinnar hreinsaði Woerth af ásökunum um að hann hefði lokað augunum fyrir því að  Bettencourt væri að svíkja undan skatti. Lögregla í Frakklandi er hins vegar að skoða málið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert