Hættir sem gjaldkeri

Öll spjót standa á Eric Woerth þessa dagana.
Öll spjót standa á Eric Woerth þessa dagana. Reuters

Eric Woerth, at­vinnu­málaráðherra Frakk­lands, lýsti því yfir í dag að hann myndi segja af sér embætti gjald­kera stjórn­ar­flokks­ins UMP. Kröf­ur hafa komið fram í Frakklandi að Woerth segi af sér ráðherra­embætti vegna fjár­mála­hneyksl­is, sem virðist vinda stöðugt upp á sig.

Woerth til­kynnti þetta eft­ir rík­is­stjórn­ar­fund þar sem hann lagði meðal ann­ars fram frum­varp um að hækka eft­ir­launa­ald­ur úr 60 árum í 62. 

Nicolas Sar­kozy, for­seti, sagði í sjón­varps­viðtali í gær­kvöldi, að hann myndi ráðleggja Woerth að segja af sér gjald­kera­embætti hjá flokkn­um. Hins veg­ar lagði for­set­inn áherslu á, að Woerth myndi áfram stýra vinnu við end­ur­bæt­ur á eft­ir­launa­kerf­inu en Sar­kozy von­ast til að lög þess efn­is verði samþykkt í októ­ber. 

Fyrr­ver­andi starfsmaður  Li­lia­ne Bettencourt, eig­anda snyrti­vöru­fyr­ir­tæk­is­ins L'Or­eal og rík­ustu konu Frakk­lands, hef­ur sakað Woerth um að hafa árið 2007 tekið við 150 þúsund evr­um í kosn­inga­sjóð Sar­kozys í aðdrag­anda for­seta­kosn­inga þar í landi. Woerth stýrði þá fjár­öfl­un­ar­starfi fram­boðs Sar­kozys. 

Bæði Woerth og Sar­kozy hafa vísað þess­um ásök­un­um á bug og saka fjöl­miðla og póli­tíska and­stæðinga um að standa fyr­ir ófræg­ing­ar­her­ferð gegn þeim.  

Woerth er einnig sakaður um hags­muna­árekstra þar sem eig­in­kona hans starfaði fyr­ir fyr­ir­tæki, sem sá um eign­a­stýr­ingu fyr­ir Bettencourt á sama tíma og hann var fjár­málaráðherra og bar ábyrgð á bar­áttu gegn skattsvik­um. 

Skýrsla á veg­um frönsku stjórn­ar­inn­ar hreinsaði Woerth af ásök­un­um um að hann hefði lokað aug­un­um fyr­ir því að  Bettencourt væri að svíkja und­an skatti. Lög­regla í Frakklandi er hins veg­ar að skoða málið. 

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert