Ísraelsk herskip umkringdu í dag líbýskt hjálparskip að nafni Amalthea sem var á leið til Gaza-strandarinnar. Að sögn Yussef Sawan, framkvæmdastjóra Kadhafi-sjóðsins sem stendur fyrir siglingunni, ógnuðu herskipin hjálparskipinu.
„Ógnin er raunveruleg,“ sagði Sawan og kveður að talstöðvarsamband við skipið hafi verið truflað. Hann sagði ennfremur að skipið héldi ótrautt áfram ferðinni til Gaza og muni ekki breyta stefnu sinni. Vísaði hann á bug fregnum af því að skipið væri á leið til hafnar í Egyptalandi.
Lyktir málsins urðu þó þær að skipið tók stefnuna á hafnarborgina El Arish í Egyptalandi og mun koma að landi í fyrramálið.
Síðast þegar Ísraelsher hafði afskipti af hjálparskipum á leið til Gaza drápu hermenn níu Tyrki um borð. Ísrealar bera við sjálfsvörn og samkvæmt rannsókn stjórnvalda voru drápin „réttlætanleg.“ Síðan þá hefur verið slakað nokkuð á herkvínni á hafsvæðinu við Gaza.