Írskir kaþólikkar köstuðu steinum, bensínsprengjum og fleiru að göngu Óraníu-mótmælenda um Belfast í dag. Lögreglukona særðist alvarlega í atlögunni. Lögregla brást við með því að skjóta gúmmíkúlum á fólkið og sprauta á það vatni úr háþrýstidælu.
Samkvæmt fréttum sjónvarpsstöðvarinnar UTV fékk lögreglukonan stóran grjóthnullung í höfuðið þannig að hún féll í jörðina. Þegar aðra lögreglumenn bar að grýttu kaþólsku óeirðaseggirnir þá með öllu lauslegu sem hönd á festi. Fleiri lögreglumenn meiddust að sögn norður-írsku lögreglunnar en ekki fengust frekari upplýsingar um þá.
Fyrri dag fjarlægðu lögreglumenn, íklæddir hlífðarfatnaði, fleiri en hundrað kaþólikka sem reyndu að hindra gönguna með því að setjast í veg fyrir hana.
Í óeirðum liðna nótt særðust 27 lögreglumenn. Þar af höfðu þrír orðið fyrir skotum en áverkarnir voru ekki lífshættulegir.