Sækja stuðning til annarra kvenna

Mynd frá kvennafrídeginum. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint.
Mynd frá kvennafrídeginum. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint. mbl.is/Þorkell

Sífellt fleiri gagnkynhneigðar konur kjósa að búa með vinkonum sínum og mynda nokkurs konar fjölskyldu eða samfélag með þeim í stað þess að bíða eftir draumamanninum. Um þetta er fjallað í dönskum fjölmiðlum.

Þar kemur fram að konurnar kjósa að búa saman í sömu íbúð, sama stigagangi eða í næsta nágrenni við hverja aðra. Þannig veitist þeim auðveldara að styðja við bakið hver á annarri, elda mat og passa börn fyrir hverja aðra auk þess að hjálpa til við ýmis önnur praktísk málefni. Í stuttu máli mynda þær með sér nokkurs konar fjölskyldueininga sem karlmenn hafa enga aðkomu að.

Að mati félagsfræðinga og annarra sérfræðinga má búast við því að þetta sambúðarform verði sífellt algengara á næstu misserum. Telja þeir að skýra megi þessa þróun m.a. með þeim mun sem orðinn er á menntun kynjanna. 

„Konur í dag gera miklu mun meiri kröfur til lífsins sem og maka sinna. Þær geta vissulega fundið sér mann, en þær virðast eiga erfitt með að finna rétta manninn. Sökum þessa ákveða þær að taka völdin í sínar hendur og kjósa fremur að búa með manneskjum sem þær vita að þær geta auðveldlega deilt lífinu með sem og ábyrgðinni af barnauppeldinu,“ segir Birthe Linddal Hansen félagsfræðingur.

„Karlmenn hafa ekki lengur jafn mikilvægu praktísku hlutverki að gegna í lífi kvenna þar sem þær hafa sannað fyrir sjálfum sér og öðrum að þær geta auðveldlega staðið á eigin fótum og náð langt,“ segir Emilia van Hauen félagsfræðingur.

Að mati Anne Glad, meðeiganda í auglýsingaskrifstofunni Sunrise, eru fyrrgreindar konur fyrst og fremst að hugsa um hagkvæmnina. „Þessar konur leggja áherslu á samveruna í hópi vinkvenna í stað þess að sækjast eftir hefðbundnara fjölskylduformi. Þetta er í reynd mjög skynsamleg ákvörðun vegna þess að með þessu móti styrkja þær netverk sem þær geta ekki öðlast í kjarnafjölskyldunni.“

Birthe Linddal Hansen leggur áherslu á að enn sem komið sé velji aðeins lítill hluti kvenna að stofna ekki hefðbundna fjölskyldu. „En það er hins vegar engin spurning að þetta nýja fyrirkomulag felur í sér ákveðna ögrun við kjarnafjölskylduna.“



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert