Breska ríkisútvarpið BBC fjallar í dag um aðferðirnar, sem Bradley Manning, 22 ára gamall bandarískur hermaður, virðist hafa notað til að komast yfir þúsundir skjala úr bandarísku stjórnkerfi, þar á meðal myndskeið sem sýndu árásir í Bagdad og skjöl, sem áttu uppruna sinn í sendiráði Bandaríkjanna í Reykjavík og birtust á vefnum Wikileaks fyrr á þessu ári.
Manning var staðsettur í Írak en virðist hafa sótt skjölin þar af innra neti bandaríska hersins. BBC hefur eftir talsmanni bandaríska utanríkisráðuneytisins að eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001 hafi bandarískar stofnanir gert sér ljóst, að þörf væri á að bæta upplýsingamiðlun svo hægt væri að gæta bandarískra öryggishagsmuna betur.
Því var ákveðið að veita ýmsum stofnunum aðgang að upplýsingum frá utanríkisráðuneytin og voru þær upplýsingar settar á svonefnt SIPR net varnarmálaráðuneytisins. Einstaklingar fengu hins vegar ekki aðgang að þessu neti nema þeir uppfylltu strangar öryggiskröfur.
Talsmaðurinn segir, að Bradley Manning sé grunaður um að hafa brugðist trausti, sem honum var sýnt.
BBC hefur eftir sérfræðingum, að ýmsar upplýsingar sem utanríkisþjónustan afli geti verið afar viðkvæmar þótt þær skipti ekki sköpum um öryggismál landsins og því sé afar óþægilegt ef þær birtist. Og fyrst einhver í Írak geti sótt upplýsingar um Ísland á tölvunet bendi það til þess, að ekki hafi verið gætt að því að viðkomandi upplýsingar færu aðeins þangað, sem þeim var ætlað að fara.
Fyrrverandi tölvuþrjótur, Adrian Lamo, kom þeim upplýsingum á framfæri við bandarísk stjórnvöld, að Manning hefði viðurkennt fyrir sér í netspjalli að hafa sent umrædd gögn til Wikileaks.
Lamo segir að Manning hafi sagt sér, að hann hafi sótt upplýsingar og brennt þær á geisladisk en þóst vera að hlusta á tónlist Lady Gaga. Hafði Lamo eftir Manning, að Hillary Clinton og þúsund bandarískir sendimenn um allan heim myndu fá hjartaáfall þegar upplýsingarnar myndu birtast.
BBC segir, að Wikileaks segist ekki hafa undir höndum þau 150 þúsund skjöl, sem Manning er sagður hafa sótt í leynilega netkerfið. Lamo fullyrðir, að Manning hafi sent öll skjölin til Wikileaks.
Þótt Wikileaks segi að það sé tæknilega ómögulegt fyrir vefinn að vita hvort Manning hafi í raun sent honum umrædd skjöl hafa forsvarsmenn vefjarins reynt að aðstoða Manning eftir að hann var ákærður.
BBC hefur eftir Assangae, að ekki hafi verið haft samband við Manning beint en að því sé unnið. Segir Assange, að hver sá sem lak upplýsingunum sé hetja enda hafi hann upplýst um mannréttindabrot Bandaríkjahers.