Barack Obama, Bandaríkjaforseti, hefur ákveðið að leita liðsinnis Bills Clintons, fyrrverandi forseta, við að koma hjólum efnahagslífsins af stað að nýju.
Clinton sat lokaðan fund, sem Obama hélt með forustumönnum í bandaríska viðskiptalífinu um leiðir til að fjölga störfum og auka fjárfestingu, meðal annars í grænni orku.
Bandaríska viðskiptaráðið gagnrýndi í dag harðlega efnahagsstefnu Obama og sakaði hann og meirihluta demókrata í Bandaríkjaþingi, að hindra vöxt með flóknu regluverki og skattareglum og vanrækja að ýta undir fjölgun starfa.
Að sögn Reutersfréttastofunnar hefur Obama í auknum mæli leitað til Clintons, sem naut í forsetatíð sinni stuðnings bandaríska viðskiptalífsins enda var mikill uppgangur í Bandaríkjunum í forsetatíð hans. Clinton hefur meðal annars aðstoðar þingmenn demókrata við að undirbúa kosningabaráttuna fyrir þingkosningar í nóvember.
Þá útnefndi Obama í dag Jack Lew, fyrrum embættismann í stjórn Clintons, í embætti yfirmanns fjárlagagerðar í Hvíta húsinu.
Fyrr í dag átti Obama fund með kaupsýslumanninum Warren Buffett í Hvíta húsinu þar sem rætt var um efnahagsmál. Obama þurfti að lána Buffett bindi fyrir myndatöku vegna þess að bindi Buffets hafði trosnað.