Amiri segist hafa verið pyntaður

Shahram Amiri (fyrir miðju) fékk góðar móttökur í Teheran.
Shahram Amiri (fyrir miðju) fékk góðar móttökur í Teheran. Reuters

Íranski vísindamaðurinn Shahram Amiri, sem hefur haldið því fram að bandaríska leyniþjónustan hafi rænt sér, segist hafa sætt pyntingum af hálfu Bandaríkjamanna.

Amiri neitar jafnframt að tengjast kjarnorkuáætlun Írans, að því er segir á veg breska útvarpsins. Hann skaut upp kollinum í sendiráði Pakistans fyrr í þessari viku eftir að hafa horfið fyrir um ári. Hann fór fram á það að vera fluttur aftur til Írans. Það hefur verið gert og er hann nú staddur í Teheran.

Bandaríkin neita ásökunum Amiri og segja að hann hafi komið til Bandaríkjanna af fúsum og frjálsum vilja.

Amiri fékk höfðinglegar móttökur frá syni sínum, eiginkonu og fjölskyldu sinni þegar hann lenti á alþjóðaflugvellinum í Teheran snemma í dag. Hassan Qashqavi, aðstoðarutanríkisráðherra Írans, tók einnig á móti vísindamanninum.

Á blaðamannafundi í Teheran ítrekaði Amiri fyrri ásakanir um að sér hefði verið rænt af liðsmönnum CIA þegar hann var í pílagrímsför í borginni Medina í Sádi-Arabíu.

Hann segist hafa verið beittur miklum þrýstingi við yfirheyrslur, en farið hafi verið fram á að hann myndi starfa með bandarískum yfirvöldum.

„Ég var beittur miklum andlegum og líkamlegum pyntingum,“ segir Amiri og bætir við að ísraelskir leyniþjónustustarfsmenn hafi verið viðstaddir yfirheyrslunar. Þá segir hann að CIA hafi boðið sér 50 milljónir dala til að vera áfram í Bandaríkjunum.

„Bandaríkjamennirnir vildu fá mig til að segja að ég hefði flúið til Bandaríkjanna af fúsum og frjálsum vilja, og nota mig til að ljóstra upp um ósannar upplýsingar um kjarnorkuáætlun Írans. Með guðs vilja tókst mér að standa þetta af mér.“

Amiri hefur ekki lagt fram neinar sannanir, en hann segir að þær muni líta dagsins ljós.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert