Almenningi í Norður-Kóreu stendur ekki til boða almenn heilbrigðisþjónusta, sjúkrahús eru í lamasessi, mikill skortur á lyfjum og hreinlæti stórlega ábótavant auk þess sem stór hluti almennings glímir við afleiðingar langvarandi vannæringar. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu mannréttindasamtakanna Amnesty International.
Þar kemur fram að hvers kyns sjúkdómsfaraldur leggist af miklum þunga á alþýðu manna m.a. sökum þess hversu fólk sé vannært. Almenningur eigi ekki kost á þjónustu læknis vegna fátæktar sinnar.
Skýrslu sína byggir Amnesty á viðtölum við rúmlega 40 íbúum Norður-Kóreu sem flúðu land á árunum milli 2004-2009. Einnig var leitað upplýsinga hjá heilbrigðisstarfsfólki sem unnið hefur með Norður-Kóreumönnum.
Stjórnvöld í Pjongjang stæra sig af almennri og ókeypis heilbrigðisþjónustu, en Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) segir að framlög hins opinbera til heilbrigðismála nemi minna en 125 krónum á mann á ári. Viðmælendur skýrslunnar benda einnig á að ógerningur hafi verið að fá almenna heilbrigðisþjónustu í landinu sl. tvo áratugi nema gegn himinháum greiðslum.
Þannig lýsir tvítug kona frá héraðinu Hamgyeongí norðurhluta landsins því að almenningi detti hreinlega ekki til hugar að leita sér aðstoðar á spítala eigi það ekki pening þar sem allir viti að enga þjónustu sé að fá án greiðslu. „Ef þú átt ekki peninga þá deyrðu,“ segir konan sem flúðu frá Norður-Kóreu árið 2008.
Annar maður segir mikinn lyfjaskort á spítölum og því neyðist sjúklingar sjálfir til þess að verða sér úti um þau lyf sem læknarnir þurfa að nota á svörtum markaði.
Kona á sextugsaldri lýsir því þegar botnlanginn var fjarlægður úr henni án svæfingar eða deyfingar. „Aðgerðin tók rúman klukkutíma. Ég öskraði svo hrikalega af sársauka. Ég hélt að ég myndi deyja. Þeir bundu mig á höndum og fótum til þess að koma í veg fyrir að ég gæti hreyft mig.“