ESB fái stöðu á við ríki innan SÞ

Höfuðstöðvar Evrópusambandsins í Brussel.
Höfuðstöðvar Evrópusambandsins í Brussel. AP

Forseti Evrópusambandsins (ESB), Herman van Rompuy, mun í framtíðinni geta ávarpað samkundur Sameinuðu þjóðanna með sama hætti og Barack Obama, Bandaríkjaforseti og aðrir þjóðhöfðingjar ríkja sem eiga aðild að þeim samkvæmt samkomulagi sem aðildarríki sambandsins hafa samþykkt. Frá þessu er m.a. greint í dag á fréttavefnum Euobserver.com sem sérhæfir sig í fréttum tengdum ESB.

Samkvæmt samkomulaginu verður farið fram á það á næstu vikum við allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna að ESB verði veitt hliðstæð réttindi og aðildarríki þeirra hafa. Eins og staðan er í dag hefur sambandið sem slíkt aðeins áheyrnarréttindi líkt og t.a.m. Arababandalagið og þingmannanefnd Atlantshafsbandalagsins (NATO) en nái þessi áform fram að ganga mun utanríkisráðherra ESB, Catherine Ashton, m.a. fá réttindi til þess halda ræður, svara fyrirspurnum, hefja umræður og dreifa gögnum sem hingað til hefur verið bundið við aðildarríki Sameinuðu þjóðanna.

Umrætt samkomulag er byggt á heimild í Lissabon-sáttmála ESB sem tók gildi í lok síðasta árs. Í umfjöllun breska dagblaðsins Daily Telegraph kemur fram að nýr utanríkisráðherra Bretlands, William Hague, hafi ekki getað lagst gegn því að þetta skref yrði tekið þar sem fyrri ríkisstjórn landsins hafði samþykkt sáttmálann og þar með bundið hendur breskra ráðamanna.

Haft er eftir embættismanni hjá ESB að hugmyndin á bak við þessar breytingar sé sú að auka vægi sambandsins á alþjóðavettvangi sem sjálfstæðrar einingar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert