Síðastliðinn júnímánuður var sá heitasti á jörðinni síðan mælingar hófust. Þetta er niðurstaða vísindamanna við bandarísku sjávar og loftslagsstofnunina (NOAA).
Tekið var mið af yfirborðshita bæði við úthöfin og á landi. Athuganir sýndu að tímabilið frá janúar til júní sé það heitasta sem mælst hefur. Niðurstöðurnar eru sagðar gefa vísbendingu um loftslagsbreytingar á jörðinni sem vekja ugg hjá mörgum.
Tekið var mið af mælingum allt frá árinu 1880.
Meðalhitinn í júní á allri jörðinni mældist 16,2°C sem er 0,69°C meira en meðalhitastig 20. aldar.
Niðurstöðurnar sýna að hækkandi hitastig sést best í Perú sem og í mið- og austurríkjum Bandaríkjanna. Einnig sjást greinilegar breytingar í austur og vestur Asíu.
Athygli vekur að meðalhiti mældist lægri en venjulega í júnímánuði í Skandinavíu.