Goldman Sachs greiðir skaðabætur

Höfuðstöðvar Goldman Sachs, 85 Broad Street í New York.
Höfuðstöðvar Goldman Sachs, 85 Broad Street í New York. Reuters

Stjórnendur bandaríska bankans Goldman Sachs hafa fallist á að greiða 550 milljónir bandaríkjadala, sem samsvarar tæplega 7 milljörðum íslenskra króna, í skaðabætur til þess að komast hjá málsókn þess efnis að þeir hafi afvegaleitt fjárfesta. Málið tengist markaðssetningu bankans á fjárfestingum í veðum á sama tíma og bandaríski húsnæðismarkaðurinn stóð á brauðfótum.

Þetta munu vera hæstu skaðabætur sem nokkur banki hefur þurft að greiða. Skaðabæturnar skiptast þannig að breski bankinn Royal Bank of Scotland, sem nú er að 84% hluta í eigu breskra skattgreiðenda og tapaði 840 milljónum dala í viðskiptum sínum við bankann, fær 100 milljónir í bætur.  Þýski bankinn IKB Deutsche Industriebankfær 150 milljónir á meðan 300 milljónir renna til bandaríska fjármálaráðuneytisins. Samkomulagið er háð samþykki alríkisdómara.

Í yfirlýsingu sem stjórnendur Goldman hafa sent frá sér viðurkenna þeir enga sök í málinu en taka fram að þeir telji rétt að ganga frá þessu samkomulagi þar sem það sé í þágu fyrirtækisins, hluthafa bankans og viðskiptavina.

Þegar fréttir spurðust út um samkomulagi hækkuðu hlutabréf í Goldman um 4,5%, en að mati fjármálaspekinga skýrist það af því að menn telja að bankinn hafi sloppið vel frá málinu.

„Þeir greiða 550 milljónir en á sama tíma hækka hlutabréf bankans um 800 milljónir. Þeir sluppu vel,“ er haft eftir Kevin Caron hjá Stifel, Nicolaus & Co. Þess má geta að hagnaður Goldman á fyrstu þremur mánuðum þessa árs nam 3,5 milljörðum bandaríkjadala.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert