Læknar á kínversku sjúkrahúsi neituðu að meðhöndla farandverkakonu, sem slasast hafði alvarlegar í launadeilum við vinnuveitendur sína, þegar þeir komust að því að hún væri alnæmissmituð.
Konan, Li Na sem er á fertugsaldri, varð ásamt vinnufélögum sínum fyrir alvarlegra líkamsárás sl. mánudag á byggingastaðnum þar sem þau vinna þegar þau kröfðu stjórnendur fyrirtækisins um ógreidd laun. Konan var í framhaldinu flutt á spítala til aðhlynningar.
„Hún fékk fimm eða sex alvarleg högg og blóðið spýttist í allar áttir. En læknarnir framkvæmdu einhverjar rannsóknir og komust að því að hún væri alnæmissmituð og þá neituðu þeir að sinna henni,“ segir Wu Jibiao, vinnufélagi Li og tengdabróðir.
„Þeir vildu ekki veita mér læknisaðstoð né gefa mér nein lyf. Ég fékk þau skilaboð frá atvinnurekanda mínum að ef ég yfirgæfi ekki spítalann þegar í stað þá myndu þeir ekki greiða neinum samstarfsfélaga minna laun,“ segir Li, sem í kjölfarið sá sig tilneydda til þess að yfirgefa spítalann.
„Á þeim tímapunkti blæddi henni enn mjög mikið, blóðþrýstingurinn var himinhár og hún gat ekki gengið,“ segir Wu.
Að sögn Wu upplýstu læknar spítalans vinnufélaga Li um að hún væri alnæmissmituð, en sjúkdómurinn þykir mikið feimnismál í Kína og þeir sem sýkjast af veirunni eru oft útskúfaðir úr samfélaginu.
„Hana langar ekki lengur til þess að lifa vegna þess að vinnufélagar hennar vilja ekki lengur tala við hana. Þeir líta allir niður á hana núna,“ segir Wu.
„Sumir þeirra tala við mig en vilja ekki koma nálægt mér. Allir vinnufélagarnir vita þetta. Mig langar bara til þess að fara í felur. Ég vil ekki að fólk horfi á mig,“ segir Li gráti næst.
Starfsfólk spítalans Dalate Qi hefur ekki viljað tjá sig um málið og lögreglan í borginni segist ekki kannast við málið.
Li segist hafa komist að því að hún væri alnæmissmituð fyrir átta árum, en hún smitaðist þegar hún gaf blóð í heimahéraði sínu, Henan. Á tíunda áratug síðustu aldar komst
héraðið í fréttirnar þegar íbúar þar sýktust af alnæmi í stórum stíl
við það að gefa blóð þar sem aðstæður voru ófullnægjandi m.t.t. til
hreinlætis og öryggis. Yfirvöld reyndu á sínum tíma að þagga
hneykslismálið niður, en heilu þorpin í Henan sýktust af veirunni við
blóðgjafirnar. Níu ára gömul dóttir Li er einnig alnæmissmituð.
„Ég hef miklar áhyggjur af því að ég muni ekki geta fundið aðra vinnu og ég get ekki farið heim. Ég upplifi ekki að það sé neinn staður fyrir fólk eins og mig,“ segir Li.
Samkvæmt kínverskum stjórnvöldum er talið að a.m.k. 740 þúsund manns í landinu séu alnæmissmitaðir, en mannréttindasamtök benda á að talan sé líklega miklu mun hærri.