Stjórnvöld í Íran hafa heitið því að góma þá sem stóðu að sjálfsmorðssprengjuárás þar í landi á fimmtudaginn. Róttækur hópur aðskilnaðarsinnaðra súnni múslima hefur lýst yfir ábyrgð á árásunum. Tvær sprengjur voru sprengdar með þeim afleiðingum að 28 manns létu lífið í mosku í borginni Zahedan í Suðaustur-Íran.
Samtökin, sem kallast Jundullah, berjast fyrir aðskilnaði súnni múslima og síja múslima. Árásin er sögð í hefndarskini vegna þess að foringi samtakanna var nýlega tekinn af lífi í Íran.
Stjórnvöld í Íran hafa sakað Bandaríkin og Bretland um að eiga þátt í árásunum. Ríkin hafi stutt við bakið á hryðjuverkasamtökunum til þess að veikja stoðir íslamska lýðveldisins í Íran. Það sé gert í hefndarskyni vegna kjarnorkustefnu Írans. Bæði Bretar og Bandaríkjamenn vísa öllum slíkum ásökunum á bug og hafa fordæmt árásirnar.
Talið er að minnst 167 manns hafi látið lífið í þessari mannskæðu árás. Mikil hátíðarhöld voru í gangi þegar árásirnar áttu sér stað. Fjöldi fólks var saman komið við moskuna þegar hryðjuverkamenn, dulbúnir sem konur, sprengdu sig í loft upp með fyrrgreindum afleiðingum.
Til þess að tryggja sem mest mannfall liðu um 15 mínútur á milli sprenginga. Það er vel þekkt aðferð hryðjuverkahópa. Eftir fyrri sprenginguna kom fjöldi fólks aðvífandi til aðstoðar. Þá lét síðari tilræðismaðurinn til skarar skríða og sprengdi sig í loft upp.