David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, lofar almenningi í Bretlandi auknum völdum.
Í ræðu sem Cameron hélt í dag kynnti hann til sögunnar áætlun sem nefnist „stóra samfélagið“ eða "big society". Markmiðið sé að færa venjulegu fólki aukin völd. Einnig standi til að líta í auknum mæli til borgaranna við ákvörðunartökur.
Ræða Camerons er af mörgum talin sú mikilvægasta sem hann hefur flutt frá því hann tók við embætti forsætisráherra.
Forsætisráðherran vonaðist, í ræðu sinni, eftir breyttum hugsunarhætti þjóðarinnar. Með áætluninni yrði fólki gert auðveldara að snúa sér til stjórnvalda með spurningar eða ábendingar. Markmiðið sé einnig að auðvelda fólki að standa á eigin fótum og gera því auðveldara fyrir að hrinda framkvæmdum af stað. Ef stjórnvöld drægju sig í hlé í ákveðnum málaflokkum myndi almenningur fylla upp í skarðið.
Uppbygging samfélagsins ætti að vera í höndum fólksins en ekki stjórnvalda. Stjórnvöld ættu aðeins að koma til aðstoðar en ekki segja til hvað þurfi eða skorti.
Cameron gekk svo langt að tala um frelsisbyltingu. Með áætluninni væri stigið stórt skref í að færa valdið frá hefðbundnum stjórnvöldum til almennings. Átakið myndi auka frumkvæði fólks og gefa því frjálsari hendur.
Breska blaðið Guardian greinir frá þessu á vef sínum.
Gagnrýnendur segja þessa svokölluðu samfélagsáætlun Camerons aðeins til að hylma yfir sparnaðaraðgerðum innan stjórnkerfisins. Verið sé að skera niður en Cameron vísar allri slíkri gagnrýni á bug.