Bill Clinton, fyrrum forseti Bandaríkjanna, ætlar sér að ganga Kilimanjaro áður en hann gengur á vit feðra sinna. Þetta kom fram í framsöguræðu hans á átjándu heimsráðstefnu alnæmissamtakanna.
Bill Clinton ætlar sér einnig að hlaupa maraþon en hann er núna sextíu og þriggja ára gamall. Clinton tók fram að The Bucket List væri ein uppáhalds kvikmynd sín en hún segir sögu tveggja manna sem keppast við að láta drauma sína rætast áður en þeir deyja. Jack Nicholson og Morgan Freeman fara með aðalhlutverkin.
„Ég er að verða sextíu og fjögurra ára gamall svo ég held að ég geti útbúið lista yfir drauma mína líkt og Jack og Morgan,“ sagði Clinton.
Clinton tók einnig fram að það væri visst frelsi að vera ekki forseti lengur. „Núna get ég sagt hvað sem ég vil, að vísu stendur öllum á sama hvað ég segi, en ég get samt sagt það.“