Bandaríski herinn hyggst innan skamms taka til notkunar geislabyssur. Þær yrðu notaðar til að verjast nálægum árásum á herskip. Bandaríski sjóherinn hefur í samvinnu við vopnaframleiðandann Raytheon, sem sérhæfir sig í flugskeytum, þegar hafið prófanir á slíkum vopnum.
Tilraunir hafa gengið vel og hefur sjóhernum nú þegar tekist að skjóta niður ómannaða tilraunaflugvél með geislabyssum. Leynilegar tilraunir hafa farið fram á vopnunum undan ströndum Kaliforníu. Breska blaðið Telegraph greinir frá þessu.
Verkefnið hófst þannig að Raytheon verksmiðjurnar keyptu sex ný leysigeislatæki sem notuð eru í bílaiðnaði. Úr þessum tækjum var svo smíðuð ein öflug geislabyssa. Hingað til hafa allar geislabyssur skotið mörgum geislum í einu. Nú hefur fyrst tekist að mynda einn gríðarsterkan geisla.
Forsvarsmenn verkefnisins líkja byssunum við þær sem notaðar eru í Star Wars kvikmyndunum, nema hvað þessar séu alvöru.
Leysigeislabyssurnar verða tilbúnar til notkunar í hernaði árið 2016. Þeim er ætlað að auka öryggi herskipa til muna.