Tugir létust í lestarslysi á Indlandi

Að minnsta kosti 57 létu lífið þegar hraðlest lenti á kyrrstæðri lest í austurhluta Indlands í morgun. Við áreksturinn kastaðist einn vagn kyrrstæðu lestarinnar á göngubrú. 120 manns slösuðust, þar af 40 alvarlega.  

Kyrrstæða lestin var á brautarstöð í Sainthia þegar hraðlestin skall á henni.  Björgunaraðgerðir hófust fljótlega og voru lík og slasað fólk dregin út úr flökum lestanna. Gríðarlegur mannfjöldi safnaðist saman á slysstaðnum til að fylgjast með.

Ekki er ljóst hvað orsakaði það, að hraðlestin ók á hina lestina. Slysið varð um klukkan 2 um nótt að staðartíma og flestir farþegarnir voru sofandi.   

„Ég var í fastasvefni í efri koju þegar gríðarlegur hávaði heyrðist eins og sprenging," sagði einn farþeginn við indverska útvarpsstöð. „Ég kastaðist út úr kojunni og fólk fór að æpa og það varð alger ringulreið." 

Flestir þeir sem létust voru aftast í kyrrstæðu lestinni. Vagnarnir þar eru fyrir þá, sem ekki láta bóka sæti.  

Unnið við björgunarstörf í morgun.
Unnið við björgunarstörf í morgun. Reuters
Fólk fylgist með björgunaraðgerðum í morgun.
Fólk fylgist með björgunaraðgerðum í morgun. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka