Kolkrabbi blandast í kosningar

Heimurinn virðist vera að uppgötva, að kolkrabbar eru gæddir mikilli spádómsgáfu, eins og kom í ljós á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu þegar Páll hinn þýski spáði rétt um úrslit knattspyrnuleikja. Nú hefur ástralski kolkrabbinn Bugsy spáð fyrir um úrslit væntanlegra þingkosninga þar í landi.

Bugsy býr í sædýrasafni í Sydney og honum var falið að skera úr um hvort Julia Gillard, núverandi forsætisráðherra, eða Tony Abbot, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, færu með sigur af hólmi í kosningunum í ágúst. Eftir smá hik valdi Bugsy mynd af Gillard.

Eigandi Bugsy segir, að hann hafi áður spáð rétt fyrir um óorðna hluti en Tony Abbot lætur það ekki á sig fá og heldur kosningabaráttunni áfram. Þegar hann var í heimsókn í verslunarmiðstöð í dag truflaði starfsmaður Verkamannaflokks Gillard fundinn íklæddur Speedo sundskýlu en Abbot, sem er ákafur hjólreiðamaður, hefur oft sést á hjólinu íklæddur slíkum fatnaði.

Búist er við að mjótt verði á mununum milli fylkinga þegar Ástralar ganga að kjörborðinu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert