Um 300 manns mótmæltu utan við skrifstofu evrópsku einkaleyfaskrifstofuna í Þýskalandi, (EPO) sem nú fjallar um það hvort réttmætt hafi verið að veita einkaleyfi á aðferðum við að rækta tómata og spergilkál.
EPO veitti árið 2002 bresku fyrirtæki einkaleyfi á aðferð við að auka magn tiltekins bætiefnis í spergilkáli, sem kann að draga úr hættu á krabbameini. Aðferðin felst í að finna tiltekin gen í genamengi spergilkálsins og rækta þær tegundir kálsins þar sem genið er ríkjandi.
Keppinautar breska fyrirtækisins hafa hins vegar krafist þess að einkaleyfið verði fellt úr gildi og sömuleiðis einkaleyfi á aðferð við að rækta tómata með litlu vatnsinnihaldi, sem henta vel til að búa til tómatsósu úr. Segja fyrirtækin, að aðferðin sé í raun náttúruleg ræktun og því eigi ekki að veita á henni einkaleyfi.
Áfrýjunarnefnd EPO hóf að fjalla um málið í dag í höfuðstöðvum sínum í München. Gert er ráð fyrir að niðurstaða liggi fyrir undir lok ársins.
Grænfriðungar, sem hafa safnað 100 þúsund undirskriftum undir kröfu um að bannað verði að veita einkaleyfi á að rækta fræ, plöntur og dýr, segja að málið geti valdið þáttaskilum.
„Verði því ekki hafnað að veita einkaleyfi á spergilkáli og tómötum munu flóðgáttir opnast," sagði Christoph Then, talsmaður Grænfriðunga. „Þá gæti lítill hópur landbúnaðar- og matvælafyrirtækja ráðið allri matvælaframleiðslu í framtíðinni."