Jarðneskar leyfar rúmenska einræðisherrans Nicolae Ceausescus og Elenu eiginkonu hans verða grafnar upp í dag til að ganga úr skugga um hvort lík þeirra hvíli ekki í réttri gröf.
Mircea Opran, tengdasonur hjónanna, upplýsti þetta í viðtali við rúmenska sjónvarpsstöð í morgun. Opran var kvæntur Zoe, dóttur Ceausescus, en hún er látin.
Opran sagði í viðtali við rúmenska fréttastofu að brýnt væri að sannreyna með lífsýnum hvort rétt lík hvíli í gröf þeirra í Ghencea hergrafreitnum í Búkraest.
Nicolae Ceausescu var kommúnískur einræðisherra sem komst til valda árið 1965. Hann stjórnaði landinu fram til ársins 1989 þegar hörð mótmæli brutust út. Hann og kona hans flúðu þá frá Búkarest en voru handtekin skömmu síðar. Þau voru leidd fyrir dóm og tekin af lífi á jóladag árið 1989.