Beatrix Hollandsdrottning hefur beðið Ruud Lubbers, fyrrverandi forsætisráðherra landsins, um að kanna stöðu stjórnarmyndunarviðræðna fimm vikum eftir að Hollendingar gengu að kjörborðinu. Erfiðlega hefur gengið að mynda stjórn en útkoman kann að hafa áhrif í Icesave-deilunni.
Fjórir flokkar, Frjálslyndi flokkurinn, Verkamannaflokkurinn, hægriflokkurinn D66 og vinstriflokkur græningja hafa reynt að mynda stjórn í tveimur samningalotum án árangurs.
„Ég hef á tilfinningunni að margir Hollendingar skilji ekki hvað hefur gerst. Hafa allir tekið þátt í viðræðunum af alvöru?“ spurði Lubbers sig er hann vék að stöðunni í viðtali við fréttamenn.
Áður en samningaviðræðurnar hófust hittust fulltrúar Frjálslynda flokksins, Kristilegra demókrata og Frelsisflokksins, hægri flokks hins umdeilda Geert Wilders, að máli en þær viðræður fóru út um þúfur.
Hefði sú stjórn orðið að veruleika hefði hún haft afar lítinn þingstyrk eða aðeins 76 sæti af 150 í neðri deild hollenska þingsins og þar með minnsta mögulega meirihluta. Til samanburðar hefði áðurnefnd stjórn fjögurra flokka haft 81 sæti og því öllu tryggari meirihluta.
Útkoman kann sem fyrr segir að hafa áhrif í Icesave-deilunni en vitað er að hægriflokkarnir eru harðari í afstöðunni til greiðslukröfunnar á hendur Íslendingum en flokkarnir vinstramegin, þótt enginn leggi til að krafan verði minnkuð stórlega eða felld niður.