N-Kórea hótar heilögu stríði

Norður-Kóreumenn hafa hótað að herða á vígbúnaði sínum með kjarnorkuvopn í tilefni sameiginlegra heræfinga Bandaríkjanna og Suður-Kóreu. Eru yfirvöld í N-Kóreu sögð tilbúin að fara í heilagt stríð. Vaxandi spennu hefur gætt í samskiptum Kóreuríkjanna að undanförnu. 

Heræfingarnar, sem fara fram á sjó, eiga að hefjast á morgun og telja N-Kóreumenn sér ógnað með þeim. Að sama skapi halda bandarísk stjórnvöld og S-Kórea því fram að æfingunum sé ætlað að bregðast við ögrandi framkomu N-Kóreu. Þung orð hafa fallið á milli grannríkjanna að undanförnu en spennan hefur vaxið smám saman síðan í mars sl. þegar N-Kórumenn eru sagðir hafa sökkt tundurspilli úr herflota S-Kóreu, með nærri 50 manns um borð. Hafa þeir harðneitað þeim ásökunum, og sagt þær jafngilda hótun um heilagt stríð með kjarnorkuvopnum.

Í heræfingu Bandaríkjanna og S-Kóreu á morgun taka 200 flugvélar og 20 herskip þátt. Er æfingin sögð sú fyrsta af allnokkrum á næstu mánuðum. Auk N-Kóreu hafa Kínverjar einnig mótmælt þessum fyrirhuguðu æfingum, en Japanir koma hins vegar að þeim sem eftirlitsmenn.

Vaxandi spennu gætir í samskiptum N- og S-Kóreu vegna heræfinga …
Vaxandi spennu gætir í samskiptum N- og S-Kóreu vegna heræfinga þeirra síðarnefndu með Bandaríkjunum. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka