Fjöldi látinna hækkar sem tróðst undir á Ástargöngunni svonefndu í Duisburg í Þýskalandi í dag, Love Parade. Nú er talið að minnst 18 séu látnir og um 80 slasaðir. Skelfing greip um sig meðal mannfjöldans í undirgöngum á leið að hátíðinni, sem fer fram um götur borgarinnar. Um 1,4 milljónir gesta eru á hátíðinni.
Vegna mannfjöldans og hættu á frekari örvinglan ákvað lögregluyfirvöld ekki að rýma svæðið og hefur hátíðin haldið áfram þrátt fyrir harmleikinn.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, er skelfingu lostin og sorgmædd yfir tíðindunum og sagði við fjölmiðla nú undir kvöld að hugur sinn og þýsku þjóðarinnar væri fyrst og fremst hjá ættingjum fórnarlambanna. Veisla unga fólksins hefði breyst í vígvöll.
„Sumir lágu á jörðinni án þess að geta sig hreyft á meðan aðrir klifruðu upp um veggi utan á göngunum," er haft eftir einu vitna að atvikinu, er varð síðdegis í dag. Vegna mannfjölda og skelfingarástands áttu lögreglu- og sjúkralið í erfiðleikum með að komast að hinum slösuðu.