Dauðasveitir í Afganistan

Bandaríkjastjórn, undir forystu Baracks Obama forseta, hefur eflt sérstakar aftökusveitir sem falið er að ráða hátt setta liðsmenn talibana af dögum. Þetta kemur fram í leyniskjölum sem hulunni hefur verið svipt af um stríðsreksturinn í Afganistan.

Um 92.000 skýrslur heyra undir skjölin en þau þykja varpa ljósi á hvers vegna talibanar standa sterkar að vígi nú en þegar stjórn þeirra var steypt af stóli haustið 2001, að því er segir í umfjöllun New York Times.

Segir blaðið Bandaríkjastjórn hafa kostað 300 milljörðum dala til stríðsreksturins, eða sem svarar 36.700 milljörðum króna, um 25-faldri þjóðarframleiðslu Íslands.

Líklegt er að uppljóstranirnar muni reynast stjórn Obama erfiðar en þess má geta að haldinn var fundur í Hvíta húsinu um stríðsreksturinn í landinu sama eftirmiðdegi og honum var greint frá því að hann hlyti friðarverðlaun Nóbels. 

Á vef New York Times segir að sérsveitarmenn úr hernum og sjóhernum skipi umræddar dauðasveitir.

Segir blaðið umsvif sveitanna hafa vakið deilur með vísan til þess að óbreyttir borgarar hafi fallið í aðgerðum þeirra.

Þá upplýsir blaðið að talibanar hafi skotið niður flugför alþjóðaherliðsins með hitasæknum eldflaugum, árásir sem ekki hefur verið skýrt frá.

Fylgja talibanar þar með í fótspor fyrirrennara sinna sem börðust gegn sovéska herliðinu á 9. áratugnum með samskonar flaugum.

En sem kunnugt er var sovéski herinn hrakinn úr landinu.

Notkun ómannaðra njósnaflugvéla í Afganistan hefur einnig vakið deilum enda hefur fjöldi óbreyttra borgara fallið í árásum þeirra sem og í Pakistan.

Vélarnar eru hins vegar ekki jafn áreiðanlegar og skilja hefur mátt af frásögnum af árásum því þeim hættir til að bila og hrapa með þeim afleiðingum að sveitir á bandi alþjóðaherliðsins þurfa að leggja sig í hættu við að komast aftur yfir þær, áður en talibanar geta komast yfir vopnin sem þær bera.

Skjölin þykja varpa ljósi á hvers vegna talibönum hafi vaxið …
Skjölin þykja varpa ljósi á hvers vegna talibönum hafi vaxið ásmegin. Reuters
Barack Obama forseti. Uppljóstranirnar gætu haft áhrif í þingkosningunum í …
Barack Obama forseti. Uppljóstranirnar gætu haft áhrif í þingkosningunum í haust. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert