Nýjar kenningar um áhrif tungumálsins á menningu ólíkra þjóða þykja ganga í berhögg við kenningar málvísindamannsins Noam Chomsky en nýju rannsóknirnar ganga í stuttu máli út á að tungumálið móti menninguna.
Kollvarpar sú túlkun kenningu Chomsky að sama mynstur málfræðilegrar uppbyggingar liggi að baki öllum tungumálum og því sé órökrétt að velta fyrir sér áhrifum tungumála á þróun menningarsamfélaga.
Þess má geta að lengi hefur verið deilt um þetta orsakasamhengi og eru slíkar vangaveltur því ekki beinlínis nýjar af nálinni.
Fræðikonan Lera Boroditsky, prófessor í sálfræði við Stanford-háskóla í Bandaríkjunum, gerir málinu skil á vef Wall Street Journal en þar segir að nýlegar rannsóknir bendi til að tungumálið hafi áhrif á þróun menningarinnar.
Vitnar Boroditsky til þeirra fleygu orða Karlamagnúsar að sá sem kunni annað tungumál hafi aðra sál, enda verkfærið til að hugsa, sjálft tungumálið, annað. Boroditsky tekur undir þetta með þeim orðum að sá sem læri annað tungumál læri að sjá heiminn upp á nýtt.
Rifjast hér upp spakmælið heimskt er heimaalið barn, í upphaflegri merkingu orðsins heimskur.
Boroditsky vitnar einnig í rannsókn Caitlin Fausey við Stanford-háskóla en athuganir hennar eiga að hafa leitt í ljós að þátttakendur í tilraun þar sem leitast var við að greina orsakatengsl upplifðu atburðarásina með olíkum hætti eftir því hvort þeir töluðu ensku, spænsku eða japönsku.
Þeir sem töluðu ensku hafi til að mynda átt auðveldara með að muna hverjir brutu vasa og annað því um líkt en hinir, enda sé germyndin algengari í hugsun enskumælandi fólks.
Greinina má nálgast hér.