Fidel Castro, fyrrverandi Kúbuleiðtogi, var viðstaddur byltingarafmælið í Havana, höfuðborg landsins, í dag er blómsveigur var lagður að minnismerki José Martí, kúbverskrar þjóðhetju sem var ein fyrirmynda byltingarsinna upp úr miðri síðustu öld.
Castro var léttur í bragði er hann hitti tónlistarfólk, listamenn og menntafólk í tilefni dagsins en hann er nú á 84 aldursári.
Hann sló þó líka á alvarlega strengi og varaði samlanda sína við hættunni á kjarnorkustríði, án þess að útskýra nánar hvaðan sú ógn komi.
Castro beindi orðum sínum einnig að Barack Obama Bandaríkjaforseta er hann lýsti því yfir að oftrú Bandaríkjamanna á undirokun náttúrunnar með vísindum og tækni væri rótin að olíuslysinu á Mexíkóflóa.
„Jafnvel [George W.] Bush þorði ekki að heimila olíuborun í flóanum, en Obama gerði það,“ sagði Castro sem er ekki þekktur fyrir að liggja á skoðun sinni.