Eyða bóluefni gegn svínaflensu

Hollendingar losa sig nú við umframbirgðir af bóluefninu.
Hollendingar losa sig nú við umframbirgðir af bóluefninu. Reuters

Hollensk stjórnvöld hafa ákveðið að eyða hátt í 18 milljón skömmtum af bóluefni gegn svínaflensu sem er að fara fram yfir síðasta söludag og því óhæft til endursölu. Hollenska heilbrigðisráðuneytið skýrði frá þessu í dag en stjórnvöld hafa þegar hafið að eyða bóluefninu.

„Á næstu mánuðum munum við eyða 17,8 milljónum skammta vegna þess að síðasti söludagur nálgast,“ sagði Inge Freriksen, talskona ráðuneytisins, í samtali við AFP-fréttastofuna.

Til samanburðar keyptu hollensk sjtórnvöld um 31 milljón skammta af bóluefni gegn flensunni er hún stóð sem hæst síðasta haust.

Af því voru um 11 milljón skammtar notaðir en alls hafa 2.156 einstaklingar verið lagðir inn á sjúkrahús í Hollandi vegna flensunnar. Voru 53 dauðsföll rakin til hennar í landinu öllu.

Hollensk stjórnvöld reyndu að selja um 19 milljón skammta en með afar dræmum árangri.

Seldust þannig aðeins um 257.000 skammtar til annarra landa eða innan við eitt prósent af heildarpöntuninni.

Hyggjast stjórnvöld geyma 2,2 milljónir skammta sem renna út síðar í varúðarskyni ef flensan snýr aftur.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) lýsti yfir svínaflensufaraldri 11. júní í fyrrasumar en hún áætlar að 18.311 manns hafi látist af hennar völdum í heiminum öllum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert