Væntingum er stillt í hóf fyrir loftslagsráðstefnuna í Mexíkó í haust og gera umhverfisráðherrar Indlands, Suður-Afríku, Brasilíu og Kína sér litlar vonir um að hún muni skila áþreifanlegum árangri.
Vísa ráðherrarnir til þess að þróuð ríki á borð við Bandaríkin hafi lítið dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Ráðstefnan fer fram í Cancun í Mexíkó dagana 29. nóvember til 10. desember en hún fór sem kunnugt er fram í Kaupmannahöfn í desember í fyrra.
Það styttist því í næstu ráðstefnu en af því tilefni ræddi Reuters-fréttastofan við umhverfisráðherra áðurnefndra ríkja á ráðstefnu í Rio de Janeiro í Brasilíu í dag.
Jairam Ramesh, umhverfisráðherra Indlands, var berorður í samtali við Reuters-fréttastofuna og sagði að þróuðu ríkin hefðu ekki staðið við það loforð sitt á Kaupmannahafnarráðstefnunni að styrkja þróunarlöndin fjárhagslega til að ná fram losunarmarkmiðum.
Vitna ummælin um áhrif fjármálakreppunnar á aðgerðir í loftslagsmálum sem segja má að hafi fallið algerlega í skuggann af baráttunni við atvinnuleysi og niðursveiflu í hagkerfunum.
Buyelwa Sonjica, umhverfisráðherra Suður-Afríku, er einnig svartsýnn og vísar til þess að töf hafi orðið á samþykkt Bandaríkjaþings á nýrri löggjöf í loftslagsmálum.
Þessi töf þýddi að afstaða þingsins myndi ekki liggja fyrir áður en ríki heims funda að nýju í Mexíkó.