Chevrolet Volt, tengiltvinnbíll General Motors, mun kosta frá 41.000 Bandaríkjadölum í ódýrustu útfærslu. Bílarisinn greindi frá þessu í dag við það tilefni er byrjað var að taka á móti pöntunum á Voltinum en með honum hefst nýr kafli í sögu bílasmíði vestanhafs.
Á móti kemur 908.000 króna skattafsláttur ríkisins.
Tekið skal fram að afslátturinn er ekki í boði í öllum sambandsríkjum Bandaríkjanna en með honum kostar bíllinn nýr á götuna i ódýrustu útfærslu ríflega fjórar milljónir króna á núverandi gengi.
Voltinn verður enn ódýrari í Kaliforníu þar sem ríflega 600.000 kr. viðbótarafsláttur verður gefinn af bílnum sem mun þá kosta um 3,4 milljónir „úr kassanum“.
Voltinn var kynntur sem hugmyndabíll fyrir nákvæmlega 1.297 dögum og þótti þá mörgum djarft að ætla að hefja fjöldaframleiðslu um og eftir áramót 2011.
Áhugasömum býðst einnig að fá Voltinn leigðan fyrir ríflega 300.000 kr. upphafsgjald og um 42.350 króna mánaðargjald í 36 mánuði, samtals um 1.525 þúsund krónur.
Fyrstu átján mánuðina verður bíllinn á boðstólnum í Kaliforníu, New York, Michigan, Connecticut, Texas, New Jersey og í höfuðborginni Washington, að því er fram kemur á vef dagblaðsins Usa Today.
Stendur síðan til að bjóða hann um öll Bandaríkin.
Eins og Morgunblaðið hefur áður sagt frá er Voltinn afar sparneytinn.