Þýski fjárhundurinn Trapper hefur valdið uppnámi innan ensku biskupakirkjunnar í Kanada eftir að upp komst að hann gekk til altaris með eiganda sínum í síðasta mánuði.
Eigandi hundsins, Donald Keith, hafði tekið hann með inn í Péturskirkjuna í Toronto, þar sem þeir voru boðnir velkomnir af afleysingaprestinum Rea. Þegar kom að því að gengið var til altaris, fylgdi Trapper eiganda sínum og var boðið að taka þátt í athöfninni.
Presturinn baðst afsökunar í kjölfar óánægjuradda innan biskupakirkjunnar í Kanada. Einn safnaðarmeðlimur kærði atvikið og sagði sig úr söfnuðinum.
Einn talsmanna kirkjunnar sagði að altarisganga hunds ætti ekki að eiga sér stað innan nokkurrar kristinnar kirkju.
Keith sagði atvikið saklaust. Ánægjusvipurinn á eldri konu í fremstu röð hefði gert það þess virði.