Rússar í einkavæðingu

Turnar Kremlar endurspeglast í skilti olíufélagsins Rosneft í Moskvu.
Turnar Kremlar endurspeglast í skilti olíufélagsins Rosneft í Moskvu. AP

Rússneska ríkið hyggst afla um einnar billjónar rúblna, nær 3.700 milljarða króna með því að selja hluta í ellefu ríkisreknum fyrirtækjum. Fyrirtækin voru þegar að hluta í einkaeigu og stækkar hlutur einkaaðila eftir söluna. Ekki er þó um algjöra einkavæðingu fyrirtækjanna að ræða heldur eru einungis um sölu minnihluta að ræða og Rússland mun áfram eiga þar ráðandi hlut.

Meðal annars verða seldir hlutar í Sberbank og ríkisbankanum VTB. Einnig í raforkuframleiðandanum Rushydro og olíufyrirtækinu Rosneft. Ríkisjárnbrautirnar RZhD verða þó áfram í einkaeigu ríkisins.

Samkvæmt frétt BBC eru þetta mestu einkavæðingaráform Rússa frá árinu 1990 og liður í að reyna að koma böndum á fjárlagahalla ríkisins sem blés upp í kjölfar alheimfjármálakrísunnar. Var haft eftir Vladimir Pútín, forsætisráðherra Rússlands í dag að fjárlagahallinn í ár væri líklegur til að haldast yfir 5% af vergri landsframleiðslu. VLF Rússa féll um 7,9% á síðasta ári eftir margra ára hagvöxt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert