Nokkur auðugustu ríki heimsins sátu hjá þegar Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti eftir 15 ára umræður sáttatillögu Bólivíumanna sem kveður á um að aðgangur að hreinu vatni teljist til mannréttinda.
Bandaríkin, Bretland, Kanada og Ástralía auk 37 annarra landa sátu hjá þegar tillagan var samþykkt. Brasilía, Frakkland, Kína, Rússland, Spánn og Þýskaland eru meðal þeirra landa sem samþykktu tillöguna. Samþykktin er ekki lagalega bindandi fyrir aðildarríki SÞ, frekar en mannréttindayfirlýsing SÞ er sjálf þó hún virðist almennt höfð til viðmiðunar þegar mannréttindi ber á góma.
„Þetta er sögulegur dagur fyrir allan heiminn og stórt skref í rétta átt,“ er haft eftir Maude Barlow, sem leiðir baráttuna fyrir vatni í Kanada en hún var áður háttsettur ráðgjafi hjá Allsherjarþingi SÞ hvað varðaði réttinn til vatns. Barlow segir samþykktina koma til með að hafa víðtæk áhrif um allan heim, þar sem sveitarfélög berjist fyrir vatnsréttindum við ríkið eða fyrirtæki sem virði ekki rétt þeirra.
„Vilja réttinn til að selja vatnið“
Barlow lýsti vonbrigðum yfir því að Kanada hefði setið hjá við samþykktina og sagðist telja að hin íhaldssama ríkisstjórn vildi hafa rétt til að selja vatn. Með því að samþykkja að telja vatn til mannréttinda væri falin ákveðin mótsögn í því að gera vatnið að verslunarvöru.
Í samþykktinni var einnig tekið vel í þá beiðni Mannréttindaráðs SÞ að árleg skýrsla sérfræðings SÞ um þær skyldur sem þau mannréttindi fela í sér, að allir hafi aðgang að öruggu drykkjarvatni verði einnig birt framvegis fyrir Allsherjarþinginu.
Þó fulltrúi Þýskalands hjá SÞ hafi fagnað samþykktinni vildi hann sjá skýrari línur um hvaða ábyrgð væri lögð á herðar ríkjum til að tryggja að allir á þeirra landi nytu slíkra mannréttinda.