Engin lausn er í sjónmáli í deilu grískra stjórnvalda og vörubílsstjóra, sem hefur meðal annars valdið því að miklar truflanir hafa orðið á flutningi á eldsneyti til bensínstöðva. Nú stendur ferðamannatíminn sem hæst og hefur deilan haft mikil áhrif á ferðaþjónustu.
Vörubílstjórar hafa verið í verkfalli undanfarna sex daga til að mótmæla því, að lækka á leyfisgjald fyrir þá sem vilja kaupa sér leyfi til að reka vörubíla. Sú lækkun er hluti af ýmsum aðgerðum, sem grísk stjórnvöld hafa gripið til í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Evrópusambandið.
Gríska stjórnin setti í vikunni lög á verkfallið og sendi hermenn af stað til að dreifa eldsneyti en aðeins lítill hluti bensínstöðva í mörgum landshlutum hefur fengið áfyllingu. Segja sérfræðingar, að þetta valdi því að fólk leggi ekki í langferðir á bílum sínum.
Vörubílstjórarnir hafa hunsað lögin og látið sem vind um eyrun þjóta hótanir stjórnvalda um að þeir verði sviptir rekstarleyfi sínu.