Ársgamlar skattalækkanir í kvikmyndaiðnaðinum í Kaliforníu hafa bæði komið í veg fyrir uppsagnir og aukið verslun og viðskipti um tvo milljarða dala. Þetta segir Arnold Schwarzenegger, ríkisstjóri Kaliforníu.
„Þetta er nákvæmlega ástæðan fyrir því af hverju ég barðist svo kröftuglega fyrir skattalækkunum í síðustu fjárhagsáætlun,“ sagði ríkisstjórinn í yfirlýsingu sinni í gær. Hann lofaði að þessi hvatning myndi skila sér ríkulega inn í hagkerfið.
Skattalækkanirnar heimila ríkinu að gefa framleiðslufyrirtækjum í kvikmyndaiðnaðinum allt að 200 milljóna dala skattaafslátt á fyrsta ári og allt að hundrað milljóna afslátt næstu árin þar á eftir.
Lækkunin var í upphafi liður í stríði ríkisins gegn sívaxandi fjárlagahalla, auknu atvinnuleysi og fjármagnsflótta í kvikmyndaiðnaðinum í Kaliforníu. Á sínu fyrsta embættisári sagði Schwarzenegger að 77 verkefni högnuðust á skattaafslætti, þar á meðal 51 kvikmynd í fullri lengd, sjö sjónvarpsþáttaraðir og fjórtán sjónvarpsmyndir.
Hann sagði að lækkanirnar hafi skapað um 730 milljónir dala í launum innan ríkisins og að þeir sem högnuðust hefðu ráðið til sín 18.200 starfsmenn, 4000 leikara og yfir hundrað þúsund aukaleikara fyrir kvikmyndir og sjónvarpsþætti.