Olíufyrirtækið BP ætlar í dag að hefja aðgerðir til að tryggja endanlega lokun fyrir olíulekann í Mexíkóflóa.
Verkfræðingar hyggjast reyna svokallaða sprautuprófun í dag en slík prófun átti að fara fram í gær.
Þá varð vart við vökvaleka í lokinu, sem komið var fyrir á borholunni um miðjan júlí, og þurfti viðgerðar við áður en prófunin gæti farið fram.
Í dag vonast verkfræðingarnir til að geta látið á það reyna hvort mögulegt sé að sprauta olíunni sem er í borholunni aftur niður í jörðina.
Þá munu þeir dæla sérstakri borholu„leðju“ niður í borholuna og skapa þannig þrýsting til baka svo olían hætti að þrýstast upp og skapa álag á lokið.
Heppnist þetta telur BP að þá verði endanlega búið að loka fyrir olíulekann sem er sá versti í sögunni.