Felldi hvítabjörn í sjálfsvörn

Hvítabjörn réðist á danskan fornleifafræðing í Grænlandi. Annar fornleifafræðingur skaut …
Hvítabjörn réðist á danskan fornleifafræðing í Grænlandi. Annar fornleifafræðingur skaut björninn. Myndin er úr myndasafni. Reuters

Danskur fornleifafræðingur felldi hvítabjörn sem réðist á og særði félaga hans verulega þar sem þeir voru við fornleifauppgröft í Grænlandi. Þetta kom fram í yfirlýsingu danska þjóðminjasafnsins í dag. Gert var að sárum fornleifafræðingsins hér á landi.

Bjarne Grønnov skaut björninn eftir að hann hafði ráðist á Jens Fog Jensen á laugardaginn var. „Þetta var sláandi lífsreynsla en við vorum bara ánægðir með að sleppa lifandi og að mestu ómeiddir,“ sagði Jensen í yfirlýsingu safnsins eftir að hann var kominn til Danmerkur. 

Að sögn safnsins var Jensen að safna upplýsingum á Clavering eyju við norðaustur Grænland þegar „björninn kom skyndilega fram undan klettum, aðeins 10-15 metra frá honum.“ Í frétt grænlenska útvarpsins KNR kemur fram að björninn hafi verið ungur og ekki stór.

Grønnov hrópaði viðvörunarorð til félaga síns og Jensen reyndi að flýja á hlaupum en „björninn elti hann og kastaði honum á jörðina áður en hann beit og klóraði handleggi hans og fótleggi,“ segir í frétt AFP-fréttastofunnar.

Grønnov greip til byssu og þegar hann skaut í átt að bjarndýrinu kom það í áttina til hans. Þá skaut fornleifafræðingurinn hvítabjörninn til bana.

Fornleifafræðingarnir voru að rannsaka veðurathugunarstöð sem nasistar reistu í síðari heimsstyrjöldinni til þess að bæta veðurspár í Vestur-Evrópu. 

Frétt grænlenska útvarpsins og mynd af ísbirninum

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert